sunnudagur, ágúst 31, 2003

Er búin að vera veik heima í viku. Hef brallað ýmislegt eins og lesið Harry Potter og glímt gríðarlega við Photo Shop, brennt geisladiska og gert hulstur og límmiða á þá. Sá líka myndirnar Identity og Old School og mæli hiklaust með þeim báðum, með formerkinu FORTE. Er líka búin að horfa á fyrstu fjórar spólurnar af 24 (sería 2) og ég verð að segja að ég varð fyrir smá vonbrigðum. Jú, jú, skemmtanagildið er það sama og í fyrri seríunni, en hugmyndin er einungis orðin pínu slitin. Mér finnst líka atburðarásin teygð aðeins of langt út á ystu nöf.

Ég er búin að taka til í öllum hirslum heimilisins og setja allt í box og möppur og merkja skilmerkilega. Svo þið sjáið að ég hef haft nóg að gera. Ég fór líka í IKEA og sá draumasófann minn og keypti nokkur pottablóm til að gera heimilislegra hjá mér. Það er skrítið, núna þegar ég er að reyna að kaupa íbúðina sem ég er í, finnst mér ég allt í einu eiga þar heima og geri allt til að reyna að gera íbúðina persónulegri, til dæmis með blómum og myndum á veggina. Ég á mér stóra drauma um nýja glæsilega eldhúsinnréttingu líka, en hún verður að bíða betri tíma.



Þið sem mælduð með því að ég læsi Harry Potter - danke. Heljar góð reið. Mér finnst líka skemmtilega gaman að bera lýsingar bókarinnar saman við kvikmyndirnar. Framleiðendur þeirra hafa lagt ansi mikið á sig við að gera Harry Potter heiminn myndrænan. Þeir fylgja til dæmis öllum lýsingum, útliti og atgervi persóna svo vel að vellíðunarstraumar fara um mig. Er bara búin með 120 bls. af þriðju bókinni en mér finnst samt svolítið mikið um endurtekningar. Maður þarf ekki að vera búin að lesa bækurnar á undan eða sjá myndirnar, allt sem áður hefur komið fram og kemur aftur við sögu er útskýrt til hlítar. Það pirrar mig svolítið því það hægir á annars góðri lesningu.

Er að hugsa um að kaupa mér stafræna myndavél, á verðbilinu 15 - 20 þúsund. Með hverju mælið þið?

fimmtudagur, ágúst 28, 2003

er veikur heima svo ekkert blogg :(

miðvikudagur, ágúst 20, 2003


svo smá svona barnablogg - þetta er litla frænka mín hún Hjördís María. Ég er guðmóðir hennar en hún grenjar alltaf hjá mér. Ég hélt á henni undir skírn og hún orgaði allan tímann. Það var svolítið bagalegt svona fyrir framan 50 manns. En hún er fallegasta barn sem ég þekki og ég neita að gefast upp fyrir smá tárum :) Það var líka svolítið erfitt að halda á barni undir skírn og kunna ekki einu sinni faðir vorið almennilega, hvað þá trúarjátninguna og annað því um líkt. En hvað um það, ég er stoltasta frænka í heimi.

Ef þið eruð skápa-áhugamenn um ljósmyndir þá ættuð þið að tékka á þessari síðu: dpchallenge. Hér get ég alveg týnt mér í að skoða góðar ljósmyndir. Blásið er til þemakeppni á hverjum degi svo viðfangsefnin eru afar ólík, en tæknin er stafræn.

Nýja serían af 24 er komin á myndbandaleigurnar og ég er glaður maur. Síðustu dagar hafa eiginlega bara farið í imbagláp. Bækurnar mínar safna ryki á hillunni, kannski það sé vegna þess að bókin sem ég er að lesa fangar athygli mín ekki nógu mikið. Á matseðli helgarinnar voru auk fyrstu þátta 24/2, myndirnar Analyze that - frekar fúin, Life or something like that - sem var alveg ágæt, Just Married - tja og Hunted sem ég man bara eiginlega ekkert eftir annað en Benicio Del Toro stóð sig vel! Svo er ég búin að spila frá mér alla lukku í spili sem heitir spardam (svipað og Hearts tölvuleikurinn), en ég hef látið í minnipokann fyrir andstæðingum mínum með yfir 500 stiga mun. En ég stend mig öllu betur í gamla góða kana. Sem sagt bara gúrkutíð hjá mér!

föstudagur, ágúst 15, 2003

Íbúðarkaupa fylgiskjöl og greiðslumat og... eru að gleypa mig þessa daganna. Þvílíkt brask. Alla vega, ég snæddi indverskan mat frá nýja take-awayinum á Hverfisgötu og maturinn var endalaust góður. Svolítið dýr skyndibiti en gæðin bæta það að einhverju upp. Matseðillinn var ekki ýkja langur en ef þið farið þangað þá verðið þið að fá ykkur nanbrauð með hvítlaukssmjöri. Muhmmmmm... Held að mesta nautn mín í lífinu sé hversu mikill sælkeri ég er :)

miðvikudagur, ágúst 13, 2003

Ég fór í Sporthúsið í gær og tók svo vel á að ég er enn þá í endorfín vímu. Vá hvað það er gott að hreyfa sig. Ég gleymdi mér í stigavélinni og horfði á þrusu skemmtilegan Fear Factor í Las Vegas, svo hljóp ég svoldið og lyfti. Það er svo gott að geta hlaupið í yfir 20 mínútur samfleytt að rushið sem fylgir því er ávanabyndandi. Maður vill alltaf meira svo þið getið bókað að ég fer aftur í gymmið í kvöld. Fyrst þegar ég byrjaði að hreyfa mig aftur í apríl, eftir gott hlé, gat ég ekki hlaupið nema í 5 mínútur en nú er ég á góðri leið með að ná upp gamla þolinu og það er dásamlegt. Ég hitti Kötu sem er að fara að taka þátt í Þrekmeistaramóti, hörkukona í geðveiku formi :)

Ég mæli með þessari mynd. Atriði úr henni ásækja huga minn í tíma og ótíma mér til mikillar gleði. John Cusack fer á kostum og Jack Black á nokkra góða spretti. Mitt álit er . Þið sem hafið séð hana, hvert er ykkar álit? Allir aðrir, munið eftir henni næst þegar þið standið úti á videóleigu.

þriðjudagur, ágúst 12, 2003

Sumir eru ekki nógu ánægðir með bókavalið mitt og furða sig á fjarveru Harry Potters og Terry Pratchett. Er að hugsa um að gefa þeim smá sjens og taka þá á bókasafninu næst þegar ég á erindi þangað. Annars eru allar bókaábendingar vel þegnar. Skólabækurnar koma þó líklega til með að taka mestan tímann minn eftir þennan mánuð. Á skólabókalistanum eru bækur eins og Heart of Darkness eftir Joseph Conrad og Cyrano frá Bergerac eftir Edmond Rostand og svo fullt af bókum sem ég veit ekkert um í jaðarbókmenntaáfanganum. Hum... enn og einu sinni er ég komin á flug að tala um bækur, Sunna verður ekki glöð :)

mánudagur, ágúst 11, 2003

Ég er að leita mér að helgarvinnu og er ekki með alveg nógu frjóan koll til að láta mér detta eitthvað sniðugt í hug. Búin að sækja um í bókabúðum og ikea og skoða allar atvinnuauglýsingarnar. Kannski það sé best að skoða gulu síðurnar. Einhverjar uppástungur?