föstudagur, febrúar 20, 2004

Food and Fun hátíðin er um helgina. Nokkrir gestakokkar töfra fram sælkerafæði á flottustu veitngahúsum borgarinnar og verðið á fjögurra rétta máltíð er 4.900. Ég var að skoða matseðlana og get ekki sagt annað en að þeir hljóma ansi vel.



Á Argentínu er bandarískur kokkur sem býður upp á:

- Skötusels 'Ceviche' með bökuðum tómat með basil og sítrusolíu
- Dökkt kjúklingaseyði með engifer, Shiitake sveppum og kastaníum
- Grilluð nautasteik með 'Mc Keans Haggis' rótargrænmeti, kremuðu spínati og Drambuie-rósmarín sósu
- Hindberja og vanillu 'Parfait' með ávaxtamauki og möndlukexi

Á Hótel Holti verður annar bandaríkjamaður sem framreiðir:

- Heitreyktan lax, epla sídra, sinnepsfræ og karrý olíu
- Graskerssúpu, svína ravíóli og graskershunang
- Lynghænu á þrjá vegu, steikt andarlifur
- Súkkulaði Croissant, pekanhnetu brauð búningur, Whisky karamellusósa og hlynssírópsís



Á Rauðará er sá þriðji frá Bandaríkjunum og býður hann upp á:

- Léttsteikta hörpuskel með snöggsteiktri franskri gæsalifur, ferskum
kryddjurtum og púrtvíni.
- Gnocchi splæst saman með truflum og humri
- Marókóskt kryddað lamb með lauk "Creme Brule" og granít eplasoðsósu.
- Súpu með þurkuðum kirsuberjum og heit möndluterta með Salvíu-ís og súkkulaði.

Í Perlunni kokkar Þjóðverji:

- Listauka að hætti hússins
- Laxafillet með volgum kartöflum, blómkálssalati og sítrónu- steinseljupestói
- Lamb með stökku hvítu brauði, tómatkryddmauki, spínat- og jarðhneturisottói og lambasoði
- Köku með karamelluhúðum eplum, rommi, vanillu og ís



Við Anton ákváðum að skrópa á árshátíð og fara frekar fínt út að borða bara tvö og hver veit nema við skellum okkur núna um helgina. Það þarf kannski ekki að vera alveg svona fínt en þetta er lokkandi. Ég get þó ómögulega gert upp á milli þessara matseðla. Já, ég er sælkeri :)

fimmtudagur, febrúar 19, 2004


Ég á gott kvöld í vændum!
Eftir klukkutíma verð ég að borða veislumat, framreiddan af mínum ástríka kærasta :) Ég held að lambakjöt verði á matseðlinum og svo komum við örugglega til með að horfa svoldið á 24 eða jafnvel spila Scrabble. Ummmm.... ég hlakka til!

þriðjudagur, febrúar 10, 2004

Mig vantar leigjanda í kjallarann hjá mér! - Um er að ræða gott herbergi og eldhús með ískápi, hellum og örbylgjuofni. Auðvitað er baðherbergi en gallinn er að þar er engin sturta. Reyndar er stutt að fara í Sundhöllina. Ef þið vitið um einhvern áhugasamann þá endilega sendið mér línu. Verðið er 25 þúsund. Þetta er nálægt Kennaraháskólanum og LHÍ í Skipholti! Herbergið hjá mömmu er líka laust - þar er ekkert eldhús en sturta!

mánudagur, febrúar 09, 2004


Við Anton, Herdís og Gunnar höfðum það náðugt í bústað um helgina í fimbulkulda og ófærð. Mikið var spilað og borðað eins og oft vill verða í slíkum ferðum en ég er að minnsta kosti endurnærð í upphafi nýrrar vinnuviku. Hér eru fleiri myndir úr ferðinni góðu.

þriðjudagur, febrúar 03, 2004

Það eru ýmsir kostir við að eiga tvö heimili :) sérstaklega fyrir fólk eins og mig sem finnst gaman að mubla upp og skreyta. Anton er að klára að koma sér fyrir og ég fæ að hjálpa þannig að við blómstrum breitt. Nú eru til að mynda komin fjögur lifandi blóm á heimilið að Vesturgötu ásamt nýjum flottum borðstofuhúsgögnum, skrifborði og djúsí stofuskáp, myndum, lömpum og ýmsum skrautmunum. Svo er spurning hvort ég fái ekki Anton til að hjálpa mér að setja upp hilluna sem ég keypti fyrir jól, heima hjá mér. Þegar það er komið væri alveg upplagt að hafa vinkonukvöld og nokkur matarboð. Reyndar er margt fleira sem mig langar til að gera á mínu heimili, mig langar að endurinnrétta eldhúsið og mála svefnherbergið. Ég hef einhvern veginn aldrei fílað að hafa það grátt. En þetta bíður feitari buddutíma. Utanlandsferðir eru ofar á dagskrá núna.

Hvað sem hver segir þá fanns mér kvikmyndin The Human Stain mjög góð. Flottar persónur, snilldar leikur og ákveðin hvíld frá forheimskandi aðalgötu-froðu! Myndin er gerð eftir samnefndri bók Philips Roths og er ég strax farin að hlakka til að lesa bókina, en hún er meðal námsefnis í Bandarískum bókmenntum á 20. öld. Philip Roth heldur áfram að koma mér á óvart. Ég las bók hans Portnoy's Complaint fyrir jól og líkaði það vel að hún endaði í nokkrum jólapökkum. Ég á svo enn frekari kynni af Roth í vændum - á leslistanum er einnig Hin feiga skepna og hver veit hvert bókaþorsti minn leiðir mig í framtíðinni!