...I love you...
Á flakki mínu um netið rakst ég á bloggskrif um hvað okkar ástsæla tunga sé takmörkuð og hallærisleg þegar hjartans mál eru tjáð. Skrifara fannst rómantískara að vera ástfanginn á ensku en ekki voru allir á eitt sáttir um það og fjörug umræða hófst í kommentakerfinu. Einhver póstaði eftirfarandi ljóð sem sýnir klárlega að tungan okkar gefur enskunni ekkert eftir í tilfinningaþrunga. Reyndar kemur ljóðið úr smiðju stílsnillings en ef ég leiði hugann að einfaldari ástarjátningum þá verð ég að segja að mér finnst minni tilfinning og meira fals búa að baki
"I love you" heldur en setningunni
"ég elska þig". Mér finnst
"I love you" vera frasi sem maður ælir út úr sér jafn oft og hverju öðru kækorði. Hugur fylgir oftar máli þegar orðin
"ég elska þig" eru rödduð. Einlægni og kjarkur knýja titring raddbandnanna. Þetta eru líklega of djúpar pælingar - auðvitað er þetta einstaklingsbundið og ekki svona auðvelt. En alla vega eru þetta mínar skoðanir sem ég hef ígrundað af og á síðustu daga í tengslum við þetta ljóð sem virðist ekki ætla að líða mér úr minni. Það er einfaldlega of magnað:
Ég veit ekki ráð mitt. Ég veit það eitt:
mitt vesala hjarta berst.
Allt er kalt. Mér einum er heitt.
Til einskis báli ég verst.
Ég hef þig, einsasta, ástþráða mey,
í allan dag ekki séð,
en renni svo sól að ég sjái þig ei,
þráir sála mín dauðans beð.
Ó þú, ég elska þig, elska þig meir’
en íslenskt mál getur sagt,
sterkt eins og þjáning þjakaðs, er deyr,
og þungt eins og forlagamagt.
Ó þú mín elskaða! hjarta mitt heitt
reynir að halda í stilli sér
En þúsund eiðar er’ ekki neitt
mót augnarenning frá þér.
Ég fer ei með lygi, fals eða tál:
Nú fyrst ég veit hvað er ást.
Af brennandi hjarta sver það mín sál
við þann sannleik er aldregi brást:
Ég taka skal þína mjúksterku mund
Það er meinsæri, verði það ei,
þú mín fyrsta ást, þú mitt forlaga sprund,
þú mín forkunnar inndæla mey.
Hannes Hafsteinn
...svona eitt að lokum, Hannes fékk sína ástþráðu mey á endanum!