
...forvitnar beljur...
Í síðustu viku tókum við Hörður skrans og brugðum okkur á túristanýlendurnar Gullfoss og Geysi. Farartækið var ekki af verri endandum, skínandi svartur bmw og sólin baðaði okkur í gullnum geislum. Þetta var sko ekki amaleg ferð. Tilgangur ferðarinnar var að taka nokkrar sólskinsmyndir af þjóðargersemunum.
Ég hef ekki komið á þessa staði í áratug og ég verð að segja að þeir stóðu engan veginn undir væntingum. Það er allt of mikil mannmergð þarna og aðkoman er hörmuleg, ógeðslegar sjoppubúllur, gígantísk malbikuð bílastæði og rútu- og bílafjödli eftir því. Maðurinn hefur átt allt of mikið við náttúruna þarna svo mikilfengleikinn hefur algjörlega farið forgörðum og víðáttan frelsar mann ekki því hver fermetri er umsetin af mannfólki. Það er sorglegt til þess að hugsa að þetta eru þær 'gersemar' sem við bjóðum gestum okkar upp á!
Mér fannst afskaplega erfitt að finna eitthvað spennandi að taka myndir af á þessum stöðum. Ef ég sá ferskt sjónarhorn var alltaf einhver að væflast fyrir mér. En á heimleiðinni rákumst við Hörður á myndarlegan beljuskara sem flatmagaði í sólskininu. Eftir smá baráttu við rafmagnsgirðingu nálguðumst við kusurnar en þær urðu bara feimnar, stauluðust á fætur og hörfu frá okkur. Við fengum okkur þá bara sæti á milli kúadellna.
Ég held að beljur séu forvitnustu skepnur sem ég hef kynnst. Um leið og við settumst fóru þær að sýna okkur áhuga og eftir smá stund voru þær búnar að umkringja okkur, nasandi og slefandi í allar áttir. Þeim fannst sérlega freistandi að sleikja mig. Tungan í þeim er slímug og áferð hennar er sandpappírskennd þannig að atlotin féllu mér ekki alveg í geð. Ef ég svo reyndi að þakka fyrir mig og strjúka þeim þá hnussuðu þær bara þannig að slefið gusaðist yfir okkur.
Já þetta voru skemmtilegar beljur og stórgóðar fyrirsætur, ég á örugglega eftir að vingast við fleirri í framtíðinni. Hér eru nokkrar myndir úr ferðinni.
