fimmtudagur, ágúst 26, 2004


...forvitnar beljur...
Í síðustu viku tókum við Hörður skrans og brugðum okkur á túristanýlendurnar Gullfoss og Geysi. Farartækið var ekki af verri endandum, skínandi svartur bmw og sólin baðaði okkur í gullnum geislum. Þetta var sko ekki amaleg ferð. Tilgangur ferðarinnar var að taka nokkrar sólskinsmyndir af þjóðargersemunum.

Ég hef ekki komið á þessa staði í áratug og ég verð að segja að þeir stóðu engan veginn undir væntingum. Það er allt of mikil mannmergð þarna og aðkoman er hörmuleg, ógeðslegar sjoppubúllur, gígantísk malbikuð bílastæði og rútu- og bílafjödli eftir því. Maðurinn hefur átt allt of mikið við náttúruna þarna svo mikilfengleikinn hefur algjörlega farið forgörðum og víðáttan frelsar mann ekki því hver fermetri er umsetin af mannfólki. Það er sorglegt til þess að hugsa að þetta eru þær 'gersemar' sem við bjóðum gestum okkar upp á!

Mér fannst afskaplega erfitt að finna eitthvað spennandi að taka myndir af á þessum stöðum. Ef ég sá ferskt sjónarhorn var alltaf einhver að væflast fyrir mér. En á heimleiðinni rákumst við Hörður á myndarlegan beljuskara sem flatmagaði í sólskininu. Eftir smá baráttu við rafmagnsgirðingu nálguðumst við kusurnar en þær urðu bara feimnar, stauluðust á fætur og hörfu frá okkur. Við fengum okkur þá bara sæti á milli kúadellna.

Ég held að beljur séu forvitnustu skepnur sem ég hef kynnst. Um leið og við settumst fóru þær að sýna okkur áhuga og eftir smá stund voru þær búnar að umkringja okkur, nasandi og slefandi í allar áttir. Þeim fannst sérlega freistandi að sleikja mig. Tungan í þeim er slímug og áferð hennar er sandpappírskennd þannig að atlotin féllu mér ekki alveg í geð. Ef ég svo reyndi að þakka fyrir mig og strjúka þeim þá hnussuðu þær bara þannig að slefið gusaðist yfir okkur.

Já þetta voru skemmtilegar beljur og stórgóðar fyrirsætur, ég á örugglega eftir að vingast við fleirri í framtíðinni. Hér eru nokkrar myndir úr ferðinni.



Harðar-myndir

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Leti
Ég er svo upptekin af því að liggja í leti og hafa það gott þessa daganna að ég má ekkert vera að því að blogga. Á meðan hrannast bloggsögurnar upp í hausnum á mér, ég ætlaði til dæmis að vera búin að segja ykkur frá forvitnum beljum, næturævintýri með lásasmiði og skemmtilegri hrollvekju - en það bíður aðeins betri tíma :) Svo er líka á döfunni að henda inn nokkrum myndum... en letin ríkir og ég uni mér stórkostlega vel!

sunnudagur, ágúst 15, 2004



Komin heim aftur. Já þetta var sko ævintýri í lagi. Ég hélt í alvöru að ég myndi deyja fyrsta daginn á Heklunni. Það var alveg bandbrjálað veður - haglrigning og rok - og ég gekk svo svakalega fram af mér að allt að himinn og jörð kollvörpuðust. En með því að gera eins og kindurnar - hanga í rassinum á næstu kind á undan - komst ég á náttstað. Daginn þar á eftir náði ég mér á strik og þrammaði fremst í flokki alla leiðina, eða svona næstum, ég dróst aftur úr í lengstu og bröttustu brekkunum. Á þriðja degi var ég svo skömmuð fyrir að fara of hratt yfir.

Áður en við lögðum af stað var spáin heldur svört - austanátt og rigning alla vikuna - en úr rættist. Í fjóra daga gengum við í bongóblíðu og hátt í 30° hita. Við Heiða vorum ekki útbúnar fyrir slíkan veðurofsa, í pokunum okkar voru einungis flís, goritex og gúmmí, engar stuttbuxur eða sólarolía. Þetta var því afar rjóð og sveitt ferð en litadýrðin og birtan var alveg einstök.

Dagurinn var allt annað en búinn þegar við komumst á náttstað að kvöldi dags. Þá þurftum við að reisa heljarinnar tjaldbúðir og elda þriggja rétta máltíð fyrir 17 manns en fyrst fengum við okkur alltaf smá bjórsopa. Það er alveg ótrúlegt hvað það getur verið gott að fá sér einn bjór eftir átta tíma geðveikt púl. Víman er orkubúst. Þessa viku borðaði ég jafnmikið af íslenskum mat og ég geri venjulega yfir heils árs skeið en það var ágætt. Til dæmis fékk ég hangikjöt og tilheyrandi sem ég fór á mis við um jólin.

Frakkarnir voru alveg ótrúlega skemmtilegir og ég er strax farinn að sakna þeirra. Trússarinn okkar (bílstjórinn sem keyrði dótið okkar á náttstað) var líka alveg yndislegur og ég á örugglega eftir að hitta hann aftur. Hann spilaði á munnhörpu og söng á kvöldin Frökkunum til mikillar gleði en ég held samt að við Heiða höfum haft mest gaman að honum. Við þrjú áttum margar góðar stundir saman, til dæmis fórum í guida partý í skálann á Álftavatni eitt kvöldið og í laugina í Landmannalaugum eina nóttina.

Þessi ferð var svo mögnuð að ég er strax farin að láta mig dreyma um að Heiða taki mig með aftur á næsta sumri.

Núna sit ég heima og læt þreytuna líða úr mér, reyndar get ég ekki gert margt annað þar sem hælar og tær eru það aum að ég get ekki verið í venjulegum skóm. En ég er þó búin að fara út að borða á TGI og í bíó á inniskónum.

Hér eru komnar inn nokkrar af myndunum sem ég tók í þessari ferð. Ég var hugfangin af litum og áferð svo margar myndirnar eru þess eðlis. Reyndar kom það berlega í ljós í þessari ferð hvað ég kann lítið á vélina mína og ljósmyndun yfir höfuð. Birtan var mér erfið og ég stillti myndavélina ekki alltaf rétt. En maður lærir meðan maður lifir.


föstudagur, ágúst 06, 2004

ég er farin á fjöll!
Heiða frænka mín er fararstjóri á fjöllum yfir sumartíman og hún bauð mér með í næstu reisu. Ég legg af stað í fyrramálið og geng í að minnsta kosti átta tíma á dag upp fjöll og heiðar fram til föstudags, þá kem ég örmagna í bæinn. Það er búið að vera heljarinnar kapphlaup á mér síðustu daga við að redda útbúnaði og fríi í vinnunni. Auðvitað þurftu líka að koma upp alls konar leiðindarvandamál eins og baðherbergisleki og tryggingarvesen en sá pakki er settur á klaka í smá tíma. Núna held ég að allt sé tilbúið fyrir viku útvist í grenjandi rigningu, það er að segja allt nema skrokkurinn á mér. Ég er í grútlélegu formi og hef smá áhyggjur af því að ég verði úti uppi á Heklu. Ég er líka með svo mikla vöðvabólgu í herðunum að ég get ekki lyft höndunum upp fyrir haus, ég get sem sagt ekki einu sinni skriðið í bæinn. Heklan er svo sem ekkert amalegur staður til að deyja á en mannsveskjan er þrautseig svo líklega lifi ég þetta af og ef svo fer deili ég kannski með ykkur myndum úr ferðinni. Það verður líka svolítið erfitt fyrir sturtufríkina mig að komast ekkert í sturtu fyrr en á fimmtudaginn en mér skilst að Pampers hreinsklútar og rigningin geri sitt gagn. Þetta verður sko ævintýri í lagi, jippý!

þriðjudagur, ágúst 03, 2004

góð helgi
Ég átti eins afslappaða helgi og hugsast getur. Vann ekkert þó að ég hafi nóg að gera. Lét strákana svitna eina. Þess í stað sá ég fullt af videói, talaði við blómin mín, las eitthvað í Öreindunum en er ekkert rosa spennt svo mér sóttist það seinnt. Meiri áhuga hafði ég á myndavélinni minni og grúskaði ég svoldið í ýmsum ljósmyndabókum.

Á föstudaginn hitti ég bestu æskuvinkonu mína á Kaffi París. Við höfum ekki sést í mörg ár og höfðum því um margt að spjalla. - Við komumst að því að heimurinn er lítill! Um kvöldið fórum við Anton með Gauja og Tobbu í bíó að sjá Shrek 2 og skemmtum okkur ágætlega. Á laugardaginn dútlaði ég bara heima en á sunnudaginn var ég alveg orðin græn af inniveru og trítlaði því niður í bæ í góða veðrinu. Ég grammsaði örugglega í tvo tíma á efstu hæðinni í Eymundsson og snéri drekkhlaðinn af bókum heim. Í gær fór ég svo í Bláa lónið með mömmu og Heiðu frænku. Þar var afskaplega margt fólk þó að veðrið væri ekkert sérstakt - grenjandi rigning og þoka. Við léutm fossinn nudda okkur og köfnuðum í gufu, það var ágætt. Heiða og Einar blésu svo til veilsu um kvöldið og ég fékk himneskan mat og unaðslegt vín. Við Einar sökktum okkur svo í ljósmyndabækur og skyldar pælingar. Einn plúsinn enn er að mér gefst kannski tækifæri til leika fjallageit með Heiðu og frönskum túristum í næstu viku. Já þetta var góð helgi.