mánudagur, september 20, 2004


Hann á ammælí dag, hann á ammælí dag! Nú á Hörður 25 ár að baki líka. Til hamingju með daginn stóri strákur :)

sunnudagur, september 19, 2004

...25 ár...

Utanlandsferðin heppnaðist fullkomnlega. Þetta var stórkostlegt ævintýri auðkennt af spékoppum og áti. Við brunuðum úr bænum upp úr fjögur á föstudaginn með Hagamelsís í maganum. Fyrsti áningarstaður var sorglega búllan Staðarskáli en á leiðinni þangað klesstum við næstum á hrút og rúturassgat. Í Staðarskála fengum við ógeðslegasta hamborgara sögunnar en við vorum í útlöndum svo það kom ekki að sök. Síðan hlykkjuðumst við um Öxnadal í votu myrkri og göntuðumst við drauga.

Á Akureyri beið okkar lúxus íbúð en við óðum beint í miðbæinn í leit að bíóinu. Við fundum strax bíóið en það sýndi ekki myndina sem við ætluðum á. Við urðum vandræðaleg og aumingjalega snerum við okkur að afgreiðslustelpunni sem hló að okkur og sagði að við værum í vitlausu bíói. Tvær aumingjans hökur skullu í gólfið, undrun okkar á stórborgarbrag smábæjarins gerði okkur að algjörum fíflum. Stelpan benti okkur sposk á hitt bíóið sem var handan næsta horns og við hrökkluðumst út.



Við sáum stórgóðu myndina Man on fire en í henni leikur uppáhalds stjarnan okkar hún Dakota Fanning. Eftir bíóið gerðum við aðra stórborgaruppgötvun - á Akureyri er 10-11 búð sem er opin allan sólahringinn. Þar gerðum við smá innkaup og héldum svo upp í íbúð þar sem uppáhaldið okkar, The Wall, var enn einu sinni krufið til mergjar.



Á laugardaginn spókuðum við okkur um stund, í miðbænum í bongóblíðu. Seinna um daginn brummuðum við á Ólafsfjörð. Þar var vel tekið á móti okkur með köku og pönsum.



Anton afi guidaði okkur svo í gegnum kaupstaðinn og gerðum við gott stopp í sæluparadís hans, á golfvellinum. Ég sveiflaði þar kylfum og sýndi allt annað en tilþrif.



Um kvöldmat vorum við aftur á Akureyri þar sem við snæddum fínt á ítalska veitingastaðnum. Á sunnudaginn sváfum við út, heimsóttum Greifann og enduðum svo Akureyrardvölina á að sporðrenna Brynju-ís.

Heimleiðin var næstum greiðfær. Við sátum nefnilega föst í góðan hálftíma á Öxnadalsheiði. Þar höfðu hundruðir rollna hertekið Þjóðveginn í skelfingu sinni. Langar bílaraðir mynduðust í hvora áttina og mig grunar að allir farþegar þeirra hafi hugsað skagfirskum bændum þegjandi þörfina á meðan þessari töf stóð. Þeir verða að teljast ansi villtir draumóramenn að hafa látið sér detta það í hug að reka megi rollur á 90 km hraða!



En við komumst suður við sólsetur og skunduðum beint í dýrindis veislu til mömmu.



Nú sit ég heima og gæði mér á jarðarberjum, sæl og glöð. Am, þetta var sko sæluævintýri í lagi!

fimmtudagur, september 16, 2004

Gleði

Ég er að fara í helgarferð til "útlanda" á morgun. Þar sem buddan mín er mögur er ferðinni heitið til Akureyrar en við Anton vonumst til að framandleikinn verði nægur til að við getum seðað aðeins útþrá okkar. Til stendur að fara fínt út að borða og drekka nokkra bjóra í rólegheitum á laugardaginn og á sunnudaginn er stefnan tekin á Ólafsfjörð þar sem sitthvað veðrur vafalaust brallað. Meira um ferðina síðar :)

föstudagur, september 10, 2004

...Skólaspeki...
Ég er að rifna úr gleði því mér finnst svo gaman í skólanum. Eitt fagið mitt er inngangskúrs í listfræði og í fyrsta tímanum sagði kennarinn okkur í framhjáhlaupi frá húmoristanum Marcel Duchamp. Duchamp þessi er álitinn upphafsmaður svokallaðrar ready-made listar. Sú list felst í því að listamaðurinn tekur einhvern sjálfgefinn hlut eða listaverk úr menningarumhverfi okkar og gerir úr honum sitt eigið listaverk með því að eiga smávægilega við hlutinn/verkið.

Eitt frægasta ready-made verkið er einmitt eftir Ducahmp sjálfan. Það heitir Joconde L.H.O.O.Q. og er frá árinu 1919. Verkið er endurgerð Mónu Lísu DaVinci, þar sem Duchamp teiknar yfirvaraskegg á eiginkonu kaupmannsins og stafina L.H.O.O.Q. Stafirnir eru franskur orðaleikur sem fela í sér vísunina: "Hún er með flottan rass!"



Svona skrípaleikur með Mónu Lísu var ekki alveg nýr af nálinni. En í kjölfar fyrri heimstyrjaldarinnar urðu bæði málverkið og dulúð þess að skotspóni allra handa listamanna sem endurgerðu hana ýmist eða lögðu út af frægð hennar. Nefna má að Aldous Huxley notaði ímynd hennar í smásögu. Hún birtist sem morðótt tálkvenndi í þýskri óperu, Nat King Cole söng um hana árið 1950 og Salvador Dali lagði út af endurgerð Duchamps með sjálfsmynd af sér og Lísu árið 1954.



Móna Lísa hefur einnig birst með uglugrímu, sem vampíra og Stalín svo eitthvað sé nefnt. Ímynd hennar varð einnig að eldfimri markaðs- auglýsingavöru. Um 1970 hafði sú þróun gengið svo langt að Lísa greyið prýddi vörur eins og silkinærbuxur, stuttermarboli, púsluspil og ruslatunnur. Lísa hefur auglýst sígarettur, ost og spænskar appelsínur og í París getur þú nú snætt á veitingahúsi Mónu Lísu eða á Cafe de la Joconde.

Þessar afskræmingar á Lísu hafa brúað bilið á milli hámenningar og lágmenningar. Ég á erfitt með að stoppa mig af í Mónu Lísu fræðunum, svo mikið hefur verið skrifað um hana að hægt væri að kenna hana til piparsveinsnafnbótar (BA!). Fyrir þá fróðleiksþyrstu set ég hér inn pistil eftir kennarann minn, hana Auði Ólafs, sem birtist á vísindavefnum sem svar við spurningunni: Af hverju er Móna Lísa svona fræg?



Leonardó da Vinci
La Gioconda (Móna Lísa)
máluð 1503-1506
Hæð 77 cm; Lengd 53 cm
Heimild: Vefsetur La Louvre

Leonardó da Vinci (1452-1519) málaði Mónu Lísu eða La Gioconda, eins og verkið er kallað víðast utan hins enskumælandi heims, í Flórens rétt upp úr aldamótunum 1500, og hann málaði hana aðeins einu sinni eftir því sem best er vitað.

La Gioconda heitir eftir fyrirmyndinni sem talin er vera Lísa, eiginkona flórentínsks kaupmanns, Francesco del Giocondo. Samkvæmt samtímaheimildum vann Leonardó að verkinu í 4 ár og neitaði eiginmaðurinn á endanum að borga honum verklaunin. Málverkið hafnaði því í eigu listamannsins sem tók það með sér þegar hann yfirgaf Ítalíu fyrir fullt og allt árið 1516, og gaf velunnara sínum, Frans I Frakkakonungi. Þannig atvikaðist það að málverkið, ásamt með öðrum lausamálverkum er Leonardó gaf Frakkakonungi, myndaði stofninn að Louvre-safninu í París.

Meðal samtímamanna listamannsins spunnust strax ýmsar sagnir um verkið og þær aðferðir sem málarinn beitti við gerð þess. Ævisagnaritarinn Vasari segir Leonardó til dæmis hafa látið tónlistarmenn spila og syngja og trúða leika listir sínar fyrir hina afburðafögru Lísu, á meðan hann málaði portrettið. Það skyldi gert til að bægja frá þunglyndisblikinu sem sótti gjarnan á fyrirsætur ef þær þurftu að sitja oft og lengi fyrir.

Í málverkinu af Mónu Lísu beitir Leonardó listtæknibragði sem hann hafði lengi verið að þróa og átti eftir að hafa mikil áhrif á fjölmargar kynslóðir portrettmálara. Málaratækni Leonardós heitir á máli listasögunnar sfumato sem er ítalska og þýðir bókstaflega í móðu eða gufu.

Aðferðin byggist á því að í stað skýrt dreginna útlína, til dæmis til að afmarka andlitsfall eða í kringum augu og munn, eru ljósir fletir látnir renna smám saman inn í dökka. Til þess að ná sem mestum áhrifum dregur málarinn tugi af örþunnum litblæjum hverja yfir aðra. Þegar engin skörp lína myndar skil á milli lita eða milli ljóss og skugga, er líkt og slæða sé dregin yfir myndina og fyrir bragðið verður svipur persónu, - sem ræðst ekki hvað síst af augnumgjörð og munnvikum, - óræðari og dulúðugri, ekki ósvipað hinu ósagða eða því sem gefið er í skyn í skáldskap.

Það er þetta stíltæknibragð sem réð mestu um orðróminn er fór af snilli Leonardós á fyrri öldum og um þau áhrif sem margir telja sig hafa orðið fyrir af verkinu í aldanna rás. Þeir sem hafa átt mestan þátt í að breiða út orðróminn um stórfengleikann í málverki Leonardós og gera verkið þannig frægt af frægð sinni, eru ekki hvað síst aðrir myndlistarmenn sem kópíeruðu verkið í massavís. Einnig tjáðu mörg skáld sig á hástemmdan hátt um þrá sína til konunnar í verkinu sem ýmist var talin brosa eða brosa ekki.

Það var í rauninni ekki fyrr en undir aldamótin 1900 að Móna Lísa og höfundur hennar voru tekin niður af liststallinum, fyrst með verki Freud um æsku Leonardós og síðan með yfirlýsingum ýmissa framúrstefnulistamanna um það að málverkið af Mónu Lísu væri "merkingarsnauð klisja", tákn fyrir íhaldssömustu gildi vestrænnar menningar. Þeir gripu einnig til aðgerða á borð við það að setja á eftirprentanir af verkinu yfirvararskegg og árita á nýjan leik (Duchamp).

Frægð málverksins af Mónu Lísu byggist ekki á því að það sé "besta málverk í heimi" enda er enginn mælikvarði til á slíkt í heimi listarinnar, heldur er verkið vitnisburður um þau fegurðargildi sem giltu í myndlist fyrir 500 árum en gilda ekki endilega í dag. Sem slíkt er það tákn fyrir tiltekið merkistímabil í menningarsögu Evrópu, Endurreisnartímabilið. Þá þykir eigendasaga verksins sérstök og síðast en ekki síst er verkið frægt af frægð sinni, svo sem að ofan greinir, en sú frægð segir okkur heilmikið um hugmyndir okkar um eigin menningu.

Í lokin má geta þess til gamans að algengasta spurning sem gestir spyrja starfsfólk Louvre-safnsins er eftirfarandi: "Where is the Mona Lisa SMILE, please?" (Afsakið, en hvar er Mónu Lísu-BROSIÐ?).

Þeir lesendur Vísindavefsins sem vilja fræðast meira um Leonardó og verk hans geta lesið svar Tryggva Þorgeirssonar og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvers vegna eru einungis 11 lærisveinar á málverki Da Vincis Síðasta kvöldmáltíðin? og svar Jóns Gunnars Þorsteinssonar við spurningunni Hverju sætir myndin sem oft sést af manni innan hrings og fernings með hendur og fætur útrétta? Um mismunandi mælikvarða á fegurð má lesa í svari Höllu Þórlaugar Óskarsdóttur við spurningunni:Er til algild fegurð?

Heimildir:
Vísindavefurinn
þessi
og þessi

fimmtudagur, september 09, 2004

...Endurfæðing í netheima...
Síðan www.theanton.com er að rísa upp frá dauðum. Hún ákallar okkur að því er virðist neðan úr gröfinni, þar sem hún klórar og krafsar og teygir sig í átt að okkur, ótrauð en svartsýn í senn. Það verður spennandi að fylgjast með upprisunni. Vonandi rís líflegur uppvakningur ;)

miðvikudagur, september 08, 2004

Látið undan þrýstingi!
Vegna þrábæna heittelskandi kærasta og móður urðu viðmótsbreytingar á síðunni. Skemmtilega greppitrýninu var steypt af stóli og í sætið settist snoppufríðari gríma. Það eru eflaust margir sem súta þessar breytingar með mér en ástin ræður ríkjum á mínum bæ :)



Önnur og langt um betri uppfærsla er sú að nú loksins er kominn hlekkur á Gauja og Tobbu í Kanada.

þriðjudagur, september 07, 2004

Vegið að næturdýrinu!

Geisp! Undur og stórmerki áttu sér stað á Vesturgötunni í morgun. Ég fór á fætur fyrir klukkan 8 og lagði mig ekkert aftur þó ég hefði næg tækifæri. Þetta er fyrsta skrefið í átt að dagfarsaðlögun minni. Trúið mér, aðdragandinn hefur verið laaaaaaangur! Í vetur ætla ég að fara að sofa fyrir klukkan 2 og vakna fyrir klukkan 8 á hverjum virkum morgni. Þetta er vita vonlaust takmark og vona ég innilega að þið verðið ekki á vegi úrilla mygluskrímslisins árla einhvern daginn þegar mér tekst erfiðið.
Ég gelymdi alltaf að segja ykkur að ég fór í sumarbústað um þarsíðustu helgi með krökkunum úr vinnunni. Það var alveg ágætt, fyllerí, pottur, góður matur og spilerí. Ég tók fullt af myndum sem ég ætlaði mér að setja inn hér en svona eftir á veit ég ekki hvort það sé sniðugt. Ég er að hugsa um að setja bara þessar tvær.


Þessi er af mér í drykkjuleik á laugardagskvöldinu. Við skiptumst á að kasta teningi og þarna fékk ég einn. Ef einn kom upp átti að taka einn sopa af áfengi eða fara úr einni spjör. Strákarnir voru ólmir í stripp og höfðu þeir allir berað á sér efrihlutan í þeirri veiku von að við færum að fordæmi þeirra. En við stelpurnar höfðum engan áhuga á að seða hormónahvatta þörf þeirra og héldumst því kappklæddar. Þarna lét ég undan þrýsting og "fór úr" hárteygjunni minni. Það var tekið gott og gilt þar sem ég hef hárið alltaf strekt aftur í hnút. Stripp strákanna er ein af ástæðunum fyrir því að ég set þessar myndir ekki inn. Fimm strákar á bumbunni er ekki spennandi myndefni :) Hér pósa aftur á mót skvísurnar úr ferðinni, ánægðar eftir skemmtilega golfkennslu strákanna:
Svarið við gátunni

Sem sagt, kubburinn hér að neðan er blettatígsprins. Mér finnst hann fyndin og mjög ólíkur tignarlegum foreldrunum. Hann er mjög loðinn og afar ófimur að sjá. Einnig virðist hann vera án eyrna! Textinn sem á við kubbsmyndina hljóðar svo:

“Still just a prince, a rare king cheetah (worth [U.S.] $25,000) is the result of a recessive gene. Except for darker elongated spots, kings are genetically identical to other cheetahs.”

Textinn sem á við myndina hér að ofan er ekki síður áhugaverður :)

“Down for the count, an exhausted impala expires in a female cheetah’s deadly stranglehold. Cheetahs’ teeth are too small to use as daggers for large kill, but strong jaws lock around the throat of prey until the victim stops breathing.”

... og auðvitað er heimildin:
—From “Cheetahs: Ghosts of the Grasslands,” December 1999, National Geographic magazine

Þess má geta að ég sá blettatígur í safaríinu mínu í sumar. Reyndar var hann í feluleik og frekar langt í burtu en honum brá fyrir í smá glimpsum. Því miður náði ég ekki mynd af honum. Það er mjög sjaldgæft að blettatígrar láti forvitna safarígesti spotta sig, einhvern veginn ná þeir að fara hulduhöfði fyrir þeim. Við vorum heppin.

sunnudagur, september 05, 2004


Mig langar að brjótast úr viðjum hversdagsleikans! Núna er ég uppfull af orku sem ég veit ekki hvernig ég á að nýta. Ég er tilbúin í rússíbanasalibunu en finn hvergi rennibraut. Öskra, hoppa, hlægja, skríkja, kíkja. Ætli ég fari ekki bara að þrífa!

föstudagur, september 03, 2004

...ohó...


Ég hef voðalega lítið að segja þessa daganna eins og sjá má af blogginu mínu. Allt gengur sinn vanagang og nú er skólinn að byrja aftur, mér til ánægju. Ég komst í kennsluskránna í fyrsta skiptið fyrir viku og endurskoðaði áfangavalið þennan veturinn allsvakalega. Ég hef ákveðið að stúdera menningarfræði sem 30 eininga val. Sem sagt ég verð listapiparsveinn í bókmenntum og menningu! Það er verst hvað maður getur lítið þanið vængina með þessar skrautfjaðrir. Líklega held ég bara áfram að nema fræði í Háskólanum.

Svona til að vega upp textaþurð mína hér hef ég ákveðið að varpa framm gátu. Getur einhver sagt mér hverslags dýrsungi þetta er?