þriðjudagur, desember 27, 2005

"Hvar er fínn?"



Það er saga að segja frá Heiðmerkurgöngu okkar í dag.

Nói var í endurskinsvestinu sínu og hljóp mjög kátur, alveg eins og kálfur, út um allt og velti sér í hreina snjónum. Svo tókum við eftir því að allt í einu var hann ekki lengur í vestinu svo við þrömmuðum fram og til baka um það svæði sem hann hafði hlaupið yfir, en árangurslaust. Við vorum orðin hálf súr yfir því að tapa vestinu, en þá datt okkur í hug að þar sem við segjum yfirleitt "Nói fínn" þegar við setjum hann í vestið að hann þekkti það orð sem og "hvar er" þar sem við notum það oft í feluleik.

Við spurðum hann því "Hvar er fínn?" og eins magnað og það er skokkað hann á réttan stað og sýndi okkur hvar vestið var. Við vorum auðvitað rosalega ánægð með þetta.

Hann Nói okkar er sem sagt nokkuð klár hvolpur :)

bestu jólakveðjur,
Nóa-foreldrar

þriðjudagur, desember 20, 2005

Hér er það sem ég hef að segja um mig Sunnu sætu:


Fyrirmælin voru eftirfarandi eins og fram hefur komið:
1 Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig

Þú ert með tásufóbíu eins og ég en ert þó með fallega fætur :) Þú ert ekki gefin fyrir hunda og varst vön að segja hverjum þeim sem reyndi við okkur á djamminu að við værum lessur til að fæla þá frá :) og allar pöddur sem stinga eru skotnar í þér í útlöndum :)

2 Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig
Allt með Britney, allt Eurovision, Fame, It's Raining men, Pottþétt gelgja kemur upp í hugan ásmat óteljandi örðum girly-lögum. Skemmtilegustu minninguna á ég þó um Blister in the sun með Violent femmes sem við dönsuðum við í Herranæturpartýum. Ég eins og gúmmíkarl og þú eins og kynbomba :) Kvikmyndir sem minna á þig eru allar stelpu-ræmur, Clueless og Bridget Joens eru tvö góð dæmi.

3 Ég segi þér hvaða bragð minnir mig á þig
Franskt súkkulaðitertubragð - þú gafst mér fyrst allra slíka dýrindisköku og það man ég sko vel. Matargleði í lagi. Svo grand orange lamba file sem við steiktum á raklet pönnu heima hjá mér í matarboði einu sinni!


4 Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér
Það var í Herranótt og ég hef óljósan grun um að við höfum ekki dregist að hvor annarri til að byrja með. Annars er ég frekar slæm í svona fyrstu minningum. Okkur samdi þó afar vel á köflum, ári síðar í stjórn Herranætur og svo á Ibiza og allar götur síðan.

5 Ég segi þér á hvaða dýr þú minnir mig
Hafmeyju! Má segja það sem dýr? Þú ert kvennleg og þokkafull, seiðandi og kastar töfra-álögum á fólk :)

6 Ég spyr þig að einhverju sem ég hef velt lengi fyrir mér um þig
Af hverju dróstu það svona lengi að segja mér að þú værir ófrísk af Vali? Þú meira að segja plataðir mig til að trúa hinu gagnstæða! Ég skil að sumu leyti en ekki alveg samt :) Kannski var það bara af því að samskipti okkar voru svo strjál á þessu tímabili!

sunnudagur, desember 18, 2005


Nú eru komnar inn nýjar myndir af Nóa hjá Rauðavatni á síðuna hans, kíkið endilega og segið mér hvað ykkur finnst. Var að fikta með macro linsuna mína :)

Hér er það sem Hörður hafði að segja um mig:

Fyrirmælin voru eftirfarandi eins og fram hefur komið:

1 Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig
2 Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig
3 Ég segi þér hvaða bragð minnir mig á þig
4 Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér
5 Ég segi þér á hvaða dýr þú minnir mig
6 Ég spyr þig að einhverju sem ég hef velt lengi fyrir mér um þig


1. Þú hafðir (og mig grunar að þú hafir ennþá, ef þú færð tækifæri til) óbilandi áhuga á góðum ratleikjum. Þú ert líka eins frábær vinur og hægt er að hugsa sér … og sama hvað er langt síðan maður hefur hitt þig, þá minnkar vináttan ekki neitt … eykst bara ef það er hægt.

2.Ég veit að það er ekki beint það sem er verið að biðja um, en það fyrsta sem mér datt samt í hug er ljósmynd en ekki bíómynd. Mynd af þér sem var tekin á svölunum heima í Hamrahlíðinni með kúrekahatt.

3. Held að ég verð að vera sammála þér og segja kókosbollan. Þetta voru rosalegar kókósbollur!!!

4. Einhversstaðar í einhverjum samkomusal þar sem allir sem voru að fara að vinna uppí Heiðmörk hittust til að skipta sér í flokka. Þú varst eitthvað að þvælast þar ein og við Kári vorum þarna. Reyndar er yngsta minningin, þó ekki fyrsta, af þér með prakkaraglott framaná vídeóspólu sem var tekin upp á leikskólanum þínum. Vildi að ég ætti eintak!

5. Krókódíl. Grunar nú samt grunsamlega mikið að það sé þér að kenna og krókódílaáráttunni þinni. Man sérstaklega eftir einhverjum hlaupkrókódíl sem þú geymdir uppí hillu eftir að hafa tússað hann. Langaði alltaf að bíta í hann.

6. Hvenær ætlum við í næstu ljósmyndaferð?

Haha, takk
Myndin í 2 var ógó góð ljósmynd, hún er ein sú besta sem tekin hefur verið af mér, en mannstu eftir vatnsslaginum okkar Guðmars sem fylgdi í kjölfarið og ég endaði ofan í baði en hann blautari en ég, hehe. Áttu myndina enn þá á stafrænu formi?

Ég var uppi hjá Rauðavatni áðan að taka myndir af Nóa og svo fékk ég svaka fínan þrífót í jólagjöf frá Antoni svo við verðum að fara að drífa okkur. Ég hef líka meiri tíma fyrir áhugamálin þar sem mér er skipað að taka því rólega af háttsettum fígúrum á Lansanum.

Þetta er sko skemmtilegur leikur :) Fleirri þurfa endilega að taka þátt!

Nói er kominn með nýtt lén hér í netheimum: http://noi.dyraland.is :) allir að kíkja og sjá sæta hvolpinn minn sem ég er stöðugt að hampa :) Ég veit að litlu frænkum mínum þykir a.m.k. gaman að skoða hann :)

laugardagur, desember 17, 2005

Hörður tók þátt í leiknum sem nú tröllríður netheimum og ég skrifaði hér mín svör við spurningunum um hann. Nú verður hann að gjöra svo vel að setja leikinn á sína síðu svo ég geti spurt hann spjörunum úr líka :) Endilega takið þátt, hér fyrir neðan! og kommentið, mig þyrstir í viðbrögð við rambli mínu!



1 Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig
Þú ert með skemmtilega teygjanlega gúmmíhúð sem gaman er að leika með og hefur farið í Perluna í brúðarkjól með mér í mörgæsarfötum! Þú hefur einnig hjólað á staur og viðbeinsbrotið þig á afar skondinn hátt, þótt ljót sé frá því að segja! Einnig dastu einu sinni þegar þú varst að tala í símann því þú varst að æfa jafvægisskynið þitt með því að standa á körfubolta, það var mjög fyndið :)

2 Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig
Barbie girl lagið með Aqua minnir mig á þig. Þú komst heim frá Bandaríkjunum þegar barbie æðið var yfirstaðið en þú greipst lagið eins og heita lummu og gerðir mér lífið leitt með því, m.a. með því að blasta það alltaf fyrir framan baðherbergið þegar ég fór á klósettið hjá þér. Rocky Horror Picture Show er sú kvikmynd sem ég kem ævinlega til með að spyrða við þig. Dálæti þitt á þeirri mynd var eitthvað það fyrsta sem ég lærði um þig.

3 Ég segi þér hvaða bragð minnir mig á þig
Kókosbollubragð og Royale búðingsbragð. Við sporðrenndum einu sinni gígabollum og búðingur var í miklum metum hjá okkur forðum daga.

4 Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér
Þú varst að vinna með mér í Heiðmörk og varst mjög hlýr og vinalegur strax frá fyrsta degi. En reyndar höfðum við hist á kvikmyndanámskeiði og fæðingardeildinni áður en sá dagur rann upp, þó ég muni ekki eftir þér þaðan.

5 Ég segi þér á hvaða dýr þú minnir mig
Bangsa, mann langar alltaf að faðma þig og þú ert traustur og hlýr!

6 Ég spyr þig að einhverju sem ég hef velt lengi fyrir mér um þig
Hvers vegna erum við ekki í betra sambandi, við erum jú einu sinni bestu vinir?
Svona var Nói fyrir hálfu ári:


og svona er hann núna, rúmlega 40 kílóa munur


hér er hann að lúlla í nýja rúminu með tístibein frá jólasveininnum :)
D O G / G O D


Hafið þið velt því fyrir ykkur að dog er anagram fyrir god, enda eru hundar guðlegar skepnur, minn að minnsta kosti :)

föstudagur, desember 16, 2005

Í heimsókn hjá Vali


Ég fór í síðustu viku að spjalla við þennan litla prins og fannst við hæfi að birta myndir af myndarlega drengnum. Ég er einning búin að bæta við link á hann hér til hægri! Ég er ekkert smá skotin í honum og er græn af öfund út í foreldrana. Finnst ykkur hann ekki líkur mömmu sinni henni Sunnu sætu?

...tvistuð bloggsamskipti...
Þetta stendur á síðunni hennar Sunnu:



Jæja, ég lofaði víst að setja svona á síðuna mína af því að ég bað Hrund um að skrifa svona um mig. Það hefur nú samt ósköp lítið upp á sig fyrir mig að setja svona í síðuna þar sem afskaplega fáir kommentera hjá mér. En hvað um það, látum á það reyna.

Commentaðu með nafninu þínu og...

1 Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig
2 Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig
3 Ég segi þér hvaða bragð minnir mig á þig
4 Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér
5 Ég segi þér á hvaða dýr þú minnir mig
6 Ég spyr þig að einhverju sem ég hef velt lengi fyrir mér um þig

Ef þú lest þetta verður þú að setja þetta á bloggið þitt!
Það getur nú verið skondið að fara í svona óhefðbundna naflaskoðun þannig að endilega látið vaða!


ég kommmenntaði:
Ég er til en er svolítið hikandi og hrædd við útkomuna :)

Telst það sem sett á bloggið ef ég set niðurstöður þínar um mig á síðuna mína?

saknaðarkveðjur,
Hjördís

þetta er svarið sem ég fékk:


Hjördís:
1. Þú hefur flutt MJÖG oft.
2. Lag: Lagið úr Underground sem var spilað svo oft í Herranæturpartýum í 4. bekk. Myndin hlýtur þá að vera Underground, þótt ég hafi ekki séð hana.
3. Undarlegt nokk, hvítlaukur. Einhvern tímann kom ég til þín á Birkimelinn og þá var mamma þín að steikja fisk upp úr hvítlauk í hádeginu. Situr mjög í mér.
4. Ég man furðulegustu atriði: Þú varst að vinna með vinkonum mínum í Heiðmörk sumarið eftir 10. bekk og ég hafði heyrt mikið talað um hvað þú værir frábær. Svo kom ég að hitta þær í Mjóddina einhvern daginn og þar sast þú á gangstéttarbrún og lést eins og bjáni með Herði. Svo man ég líka eftir Rocky Horror dansi í Heiðmörk.
5. Hundur!
6. Af hverju kallarðu ykkur Anton foreldra Nóa? Ég er mamma og veit hvað þurfti til, ég vona að þú hafir ekki þurft að remba Nóa út úr þér... ;)
7. Nei Hjördís, þú verður að setja leikinn á bloggið, ekki niðurstöðurnar.


mín túlkun
Underground myndin og tónlistin var í miklu uppáhaldi hjá mér og trylltu Herranæturpartýin í góðu minnishólfi. Ég kalla okkur Anton foreldra Nóa vegna þess að við erum uppaldendur hans og hann er svo mikill hvolpur, líklega líka vegna þess að mig langar í barn, við erum a.m.k. fósturforeldrar :) Já, ég var vilt í Heiðmörk sumarið eftir 10. bekk og já ég hef flutt allt of oft, sérstaklega í ljósi þess hvað ég á mikið af dóti og húsgögnum :(

svo nú er komið að mér að svara spurningum kommentara minna, þó ég eigi fáa slíka líkt og Sunna

miðvikudagur, desember 14, 2005


...sú var tíð...
að ég synti 2 kílómetra í hverri sundferð, en nú er ár liðið og líkaminn laskaður og ég get ekki spriklað í sundi í 45 mínútur án þess að verða skjálfandi hrísla á eftir. En mikið var nú gott að fara í sund, svo er ég líka farin að geta labbað aðeins með Nóa minn úti án þess að gjörsamlega drepast. Nú þarf ég bara að hafa trú á sjúkraþjálfuninni og góða skapinu.


...Nóa-leikur...
Nói og ég föttuðum skemmtilegan leik áðan, ég kasta tístibolta og hann grípur, þvílík kátína. Þroskastökk hjá honum og "mamman" gleðst og grobbar eins og slíkum konum er tamt :) Af öðrum óspurðum fréttum get ég sagt ykkur að hvolpurinn minn er orðinn 43 kíló, takk fyrir! - og ekki feitur, bara risastór!

...ekki lengur grasekkja...
Anton kom heim frá London í gærkvöldi og færði mér alls kyns yndis-föndurtæki og þrífót fyrir myndavélina. Ég rifnaði af gleði, bæði af huglægum og efnislegum ástæðum :) Ég stóð í ströngu um helgina og sóthreinsaði íbúðina, ryksugaði bak við skápa, hengdi upp myndir, skreytti tré og pakka og föndraði mikið. Ég náði líka að afreka það að rífa internetið úr sambandi og þar með fór sjónvarpið og síminn líka. Einnig náði ég að skemmileggja fína 50.000 kr ljósmyndaprentarann minn með asnaskap og þrjósku og gerði góðar tilraunir við að stúta öðrum alls óskyldum prenturum. Sem sagt hegðaði ég mér eins og einstæðri konu sæmir, algjörlega ósjálfbjarga í tæknimálum, það hefur ekki komið fyrir mig áður.

...fönduróð...
er ég þessa dagana, bara svona ef þið vissuð það ekki og ég meina óð, geðveikt gaman.

over and out...