föstudagur, maí 05, 2006

Játningin mikla

Nú tek ég þvílíkum stakka skiptum dag frá degi, uppáhaldslagið mitt er kántrýlag með Dolly Parton (Jolene) og ég keypti mér Johnny Cash disk í London þó ég fíli hann ekkert sérstaklega. Svo í gær gerði ég aðra ólíklega uppgötvun, ég hafði gaman af að fylgjast með júróvisjon tengdu efni og hananú. Aldrei hélt ég að ég myndi láta annað eins frá mér fara en þetta er víst staðreynd svo ég verð bara að taka á honum stóra mínum og viðurkenna það.

Það er svona norrænn júróvisjonþáttur alltaf í sjónvarpinu á fimmtudögum þar sem fimm norðurlanda spekúlantar kryfja framlögin í ár og gefa stig. Mér finnst flest lögin enn sem áður frekar súr þó nokkur komi á óvart en fólkið sem metur þau er svo hrífandi, lifandi og skemmtilegt að ég get ekki annað en hlegið með bröndurunum þeirra.


Í gær var t.d. finnska lagið kynnt og það á að vera svona þunga/dauðarokk. Þó lagið sé svolítið klisjukend tilraun á þeim vettvangi var það frábært innlegg í keppnina og á sömu breiddargráðu og Silvía Nótt hvað varðar súrealisma en þó á öndverðum kanti. Söngvararir eru allir með djöfla- og púkagrímur og eru "ógeðslega sexý og sætir" en myndbandið hefur verið bannað í mörgum löndum því það telst óviðeignadi. Eitt landanna sem bannaði myndbandið er Kýpur en í sínu framlagi hórast söngkonan þvílíkt í óhóflega kynlífstengdu og kvennsölulegu myndbandi, kynlífsiðnaður fer minna fyrir brjóstið á þeim heldur en paróidíu djöfladýrkun og það fannst mér afar fyndið. Það er skrítið hvernig sumir vilja endurspegla þjóðina sína. Jafnvel Tyrkland þar sem þorri kvenna gengur með blæju seldi blíðu og útlit söngkonu sinnar og kom það mér frekar spánskt fyrir sjónir.

Það má ekki skiljast sem svo að mér finnist að allir keppendurnir eigi að vera eins ljótir og hinir finnsku Lordi. Ég kann alveg að meta fegurð og kynþokka en þetta er söngvakeppni þar sem framlögin eiga að endurspegla heilu þjóðirnar en ekki popp-peningamaskína í anda MTV.

Eini spekúlantinn sem fer í taugarnar á mér er Mads frá Danmörku en það er allt í lagi því þau hin eru svo rosalega skemmtileg. Öllum þeim, nema Finnanum, fannst finnska lagið æðislegt og það fannst Selmu Björnsdóttur líka ásamt auðvitað mér. Það er svo svakalega heimilislegur blær yfir þessum þáttum að það er ekki annað hægt en að hrífast af þeim. Þetta er sögulegur tími hjá mér því aldrei áður hef ég bæði þekkt íslenska lagið fyrir keppnina (og jafnvel eftir hana) og janframt kynnt mér erlendu framlögin. Já, sveimér þá, það er nú eiginlega bara pottþétt að ég fylgist með keppninni í ár og hlakka jafnvel smá til!