Ég er mikill fylgismaður alls jafnréttis en tek skýrt fram að í mínum bókum er jákvæð mismunun ekki jafnrétti og sjaldan rétta leiðin að málamiðlunum en það er líklega vegna þess að mér finnst jafnrétti sjálfsagt. Jafnréttiskend mín fer stundum fyrir brjóstið á öðrum því mér er yfirleitt fyrirmunað að dilkadraga fólk. Allir eiga sama rétt og við erum eins ólík og við erum mörg en mismunurinn felst í einstaklingseðli og skapgerð okkar fremur en kynferði, kynhneigð eða útlitslegum sérkennum. Alla vega þetta var allt of langur og pólitískur formáli. Það sem var að brjótast um í mínum kolli var möguleg ástæða þess að skák er enn í dag kynjaskipt íþrótt. Ég skil upp að vissu marki kynjaskiptar greinar þegar kemur að líkamlegum möguleikum en ég vissi ekki að litningarnir okkar hefðu áhrif á gáfur og kænsku. Það er vissulega satt að færri stelpur tefla en strákar en það er menningarleg arfleið sem er kennd eins og það að gefa strákum bíla og stelpum dúkkur. Ég veit að Adam er sagður koma á undan Evu og karlar í gegnum aldirnar hafa verið gerendur og konur setið á hliðarlínunni en við lifum í nútímanum. Feðraveldið er að lúffa fyrir náttúruvalinu á gríðarlega mörgum vígstöðvum - er ekki kominn tími á skákina? Tiger Woods er búinn að sigrast á golfsnobbinu!
ps. Konan og allir "aðrir" hafa alltaf verið jafnokar feðraveldisins sem vissi upp á sig skömmina og óttaðist bælda jafnoka sína. Annarleikinn er aðeins ógn eins og drottninginn á skákborðinu, þegar hann er gerður framandi, þegar sérstakar reglur gilda fyrir útskúfaða. Það virkar á báða bóga, hinir útvöldu sem feðraveldið hampar, líða einnig oft fyrir mismununarreglur. Heimur batnandi fer en Róm var ekki byggð á einum degi. Herramennska er til dæmis ágæt leið til að heilla tilvonandi maka en hver segir að biðillinn þurfi endilega að vera karlkyns?